Laugardagur

 

Búin að gera margt í dag. Fara í búð, fara í heimsókn, leggja mig, leika við son minn, setja kvöldmatinn í ofninn og fleira. 

 

Nenni ekki þessum degi meira. Vildi óska að hann væri búinn og ég væri komin upp í rúm að sofa. GARG!!

 

Bless.


Föstudagsmont

Smá montfærsla í tilefni þess að það er föstudagur í dag...

 

Var að fá útúr verkefni í skólanum.... ÉG FÉKK 10!!!!

 

Er búin að fá út úr 4 verkefnum og hef fengið þrisvar 10 og einu sinni 8!!

 

Ég er aðeins of glöð með þetta..!

 

Gleðilega helgi fólks!


Gréta? Er þetta eitthvað sem þú þyrftir að athuga??

Ertu Survivor fíkill??

Þú ættir að íhuga að slökkva á Survivor þegar:

... Þér finnst allir í kringum þig tilheyra sama ættbálki og þú

... Þú velur fæði fyrir gæludýrið þitt með það að markmiði að það bragðist vel

... Þú endar alltaf mál þitt með orðunum "the tribe has spoken"

... Þú skipuleggur samkeppni heima hjá þér um það hver fær eftirmat

... Þú myndar bandalag með hundinum til að losna við köttinn

... Þú kveikir í kústskaftinu og situr með það eins og kyndil léttklædd úti á palli

... Þú frábiður þér öll stefnumót á föstudagskvöldum, MYNDBANDSTÆKINU ER EKKI TREYSTANDI!!!

... Þú ert farin að íhuga hvaða heimilismann þig langar helst að losna við

... Þú getur ekki hætt að tala um löngu liðnar Survivor þáttaraðir.... ALLAR SAUTJÁNÞÚSUND!!!

... Þú nefnir gæludýrin þín Morgunmat, Hádegismat og Kvöldmat

... Þér finnst allt í einu fótbolti, handbolti og ólympíuleikar ekki skipta neinu máli

... Þér finnst föstudagar koma sjaldnar og sjaldnar

... Þér finnst allir þátttakendurnir í Stjörnu-Survivor vera gamlir kunningjar....

 

Jæja Gréta, nú kemur spurningin... Hversu margar af þessum setningum getur þú sagt já við??

 

Að lokum... Elsku besta Guðrún systir mín, til hamingju með 18 ára afmælið í dag :D

 

 


16. september

Með þessu bloggi er ég að bjarga mannslífi. Eða kannski mörgum. Allavega lífi Grétu frænku minnar og míns sjálfs... Grétu lífi svo að hún andist ekki úr leiðindum og mínu svo ég andist ekki úr leiðindum yfir tuðinu í Grétu um að ég eigi að blogga...

 

Og þá er komið að þessu... Blogginu...

 

Skólinn gengur enn eins og í sögu... En hver nennir að tala um það.. Tölum um eitthvað annað.. 

 

Tölum um það að ég er lasin!!! Tölum aðeins um það að ég get ekki talað!!! Ef ég reyni að tala, þá kemur ekkert.... EKKERT!! NADA!! Það er alveg ógeðslega fáránlegt...

 

Við getum líka talað um það að það er kominn vetur. Birr... Orðið kalt og runninn minn hérna fyrir utan er orðinn rauður. Hann á að vera grænn. Segja þeir sem þekkja þetta, það var bara einhver sem sagði mér það. Ég hef ekkert vit á svona gróðri. Ég hef t.d. aldrei vökvað þennan runna, en samt er hann á lífi. Kannski vökvar Sigurgeir hann, en ég held samt ekki. Hver ætli haldi honum á lífi eiginlega??

 

 

 


Skóli, gleði og söknuður....

Byrjum á skólanum. Ég er náttúrulega byrjuð á fullu og gengur líka svona vel get ég sagt ykkur. Er búin að skila 2. verkefnum og fá 10 út úr þeim báðum!!! Ég er svo montin að ég spring bráðum!! Er samt alveg róleg, er ekkert að missa mig eða neitt þannig. Gleðin er bara svo rosaleg yfir því að kannski sé ég nú algjörlega að gera eitthvað rétt!!! Tilfinningin er dásamleg!! Ætla bara svo aldeilis að halda áfram á sömu braut...

Gleðin er næst. Sonur minn er að sjálfsögðu mitt aðal gleðiefni. Er alltaf jafn dásamlegur en jafnframt dásamlega orkumikill og dásamlega mikill prakkari. Það er t.d. ein að vinna á leikskólanum sem heitir Hera og er stundum að leysa af inni á deildinni hjá honum og eins hittir hann hana úti að leika. Hann hefur hins vegar bitið það í sig að hún heiti bara alls ekkert Hera, heldur Pera! Svo flissar hann bara að vitleysunni í sjálfum sér, en neitar alfarið að segja Hera! Það er sko hún Pera sem er að passa hann stundum!

Meiri gleði.. Hitti Sonju sykurpúða Steina Randvers og Hrannardóttur á sunnudaginn var. Hún er bara dásamleg. Svo lítil og sæt og æðisleg. Fékk aðeins að máta hana og spjalla og hún var bara alveg sátt við mig. Auðvitað!

En núna erum við komin að söknuði. Hafrún vinkona er farin frá mér. Flutt til Reykjavíkur. Ég bara trúi þessu varla ennþá. Það er reyndar stutt síðan hún fór, bara 2 tímar. En mér er sama. Þetta verður ótrúlega skrýtið. Hver á að koma í mat til mín og slúðra við mig? Hver á að vera alltaf að hitta mig útum allt og hver á eiginlega að vera Hafrúnin mín?? Þetta verður skrýtið. Mjög skrýtið. En ég er líka svo stolt að henni að taka skrefið sem hana er búið að langa til að taka í ofsalega langan tíma. 

 Gangi þér vel elsku hjartans Hafrún mín. Sakna þín og allt það. Þú átt eftir að standa þig eins og      hetja eins og alltaf. Hlakka til að koma til Reykjavíkur til þín og drekka bjór og margarítur....

Jæja, hef ekkert meira að segja í bili....

 

P.S. Hafdís..... KVITTAÐU KONA!!!! Veit að þú ert þarna!!!


Skólaganga hafin.

Fór suður um helgina til að hefja nám mitt við háskólann á Bifröst. Er búin að bíða eftir þessum degi sennilega lengur en ég kæri mig um að muna. Hef einhvern veginn alltaf ætlað í skóla aftur, en aldrei neitt orðið úr því. Stór ástæða fyrir því hefur alltaf verið fjárhagurinn. Komin með fjölskyldu, íbúð, skuldbindingar og þar fram eftir götunum. Sennilega hefur líka þorið ekki verið meira.

 

En skólinn er dásamlegur. Það er rosalega gott að vera þarna á Bifröst. Mér líkar vel við fólkið sem er með mér þarna. Ég var hins vegar yfirkeyrð af stressi og þreytu á föstudagskvöldið, svo að ég gat ekki sett mig alla í að skemmta mér með fólkinu. Það verður næst, þegar ég verð búin að ná þessu betur og veit hvað ég er að fara að gera...

 

En ætla að fara að gera eitthvað af viti. 

 

Sirrý NÁMSMAÐUR!!!

 

 


Lokað fyrir umræðu?

"yfirvöld hafa lokað fyrir umræðu um málið í kínverskum fjölmiðlum"

 

WHAT!?

 

 


mbl.is Kínverjar verja ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afi minn

Er á þessari mynd. Sést í hnakkann á honum.

 

Ég hef alltaf verið hrædd við þessa beygju.

 

Guði sé lof að maðurinn slapp ómeiddur. 


mbl.is Heyrðu hjálparkall mannsins undan brúnni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það besta sem ég hef heyrt...

Aðalsteinn bróðir minn ætlaði til Akureyrar í gær og hafði með sér hann Sveinbjörn frænda til að stytta sér stundir. Þegar þeir voru komnir upp múlann fór þeim að finnast skrýtin hljóðin sem bárust frá bílnum svo þeir ákváðu að snúa við og kíkja á bílinn á Skjöldólfsstöðum. Eftir að vera búnir að velta þessu fyrir sér nokkra stund ákváðu þeir að þetta gengi ekkert svona og hringdu í bjargvættinn mig til að bjarga sér. Ég átti sumsé að koma með bílinn hans Sveinbjörns, sem við erum á þessa dagana sökum áunninnar fötlunar hans, upp í Skjöldólfsstaði svo þeir gætu farið á honum norður og klárað erindi sitt þar. Það vildi nú ekki betur til en svo að ég var búin að bragða á áfengum drykk og harðneitaði að hreyfa bílinn. Þeir ákváðu því að finn eitthvert annað fórnarlamb til að færa sér bílinn.

 

Þeir hringdu í vinnufélaga Sveinbjörns sem var alveg til í að gera þetta fyrir þá, bara ekki vandamálið... Hann átti því að fara heim til mín og sækja bílinn. Í rauninni í sömu götu og Villi býr, bara endahúsið. Alveg á endanum. Þetta voru upplýsingarnar sem hann fékk. Ég var að snúast eitthvað hér heima og nennti því ekki að bíða eftir manninum til að afhenda honum lyklana, svo ég setti þá í svissinn og lét Sveinbjörn vita af því. Ekkert mál með þetta, ég taldi það víst að bílinn sæi ég ekkert í stæðinu fyrr en á morgun og spáði ekkert mikið í þetta meir. 

 

Fyrr en mér verður litið út um gluggann 2 tímum síðar og sé mér til mikillar undrunar að bíllinn stendur ennþá í hlaðinu. Ég tek upp símann, hringi í Aðalstein og spyr hann hvað sé eiginlega að frétta af manninum sem átti að sækja bílinn? Svarið við þeirri spurningu var ofsafenginn hlátur.

 

Maðurinn hafði jú sótt gráan Subaru Legacy og brunað á honum upp í Skjöldólfsstaði.......... BARA EKKI RÉTTAN BÍL!!!!! 

 

Tók sumsé bílinn hjá fólkinu sem býr hér nokkrum húsum frá.

 

Til hamingju með þetta vinnufélagi Sveinbjörns. Þetta gerði gærdaginn bara ennþá betri en ég hef vitað daga yfirleitt. Ég er enn að bilast úr hlátri yfir þessu...

 

Bjarni í Skógum er hinsvegar ekki hlæjandi. Þeim fannst þetta ekki fyndið og hringdu á lögregluna. 

 

Eitt gott gæti reyndar komið útúr þessu. Þau skilja lyklana af bílnum alveg örugglega ekki eftir í honum aftur....

 

Hahahahahaha........


Sumarfríi lokið

Sumarfríið mitt er búið. Ein vika. Ætla að taka einhverja daga næstu vikur, bara eftir því hvernig staðan er í vinnunni. Mig langar ekkert að fara að vinna, en samt hlakka ég til að fara að vinna. Það er vandlifað í henni veröld.

 

Í næstu setningum ætla ég að tala um reykleysið mitt. Ef það fer í taugarnar á þér, þá skaltu hætta að lesa núna................

 

Ég er búin að vera reyklaus í 5 daga. Eflaust finnst einhverjum það ekki vera langur tími, en mér reiknast samt svo til að á aðeins 5 dögum sé ég búin að spara mér 3500 krónur. Það eitt og sér finnst mér ansi fínn bónus. Fyrstu 3 dagana hafði ég munnsogstöflurnar alltaf á mér og var að nota svona 2-3 á dag. Síðustu 2 daga hins vegar hef ég ekkert þurft á þeim að halda. Ég hef einhvern veginn bara ekkert spáð í þessu. Á mínu heimili reykir náttúrulega enginn svo ekki þarf ég að horfa upp á þetta hverja stundu. Ég hef svolítið verið hjá tengdaforeldrum mínum og þar er reykt, en það hefur heldur ekkert plagað mig. 

Ég hef líka velt því fyrir mér að í þetta skipti er það bara þannig að ég vil þetta ekki lengur. Ég vil ekki vera illa lyktandi, subbuleg og svona háð einhverju. Ég vil ekki þurfa að skammast mín á hverjum degi fyrir eitthvað. Ég vil geta verið frjáls og óháð hvar sem ég er og hvenær sem það er. Ég vil heldur ekki fá krabbamein. Ég veit það vel að ég er ekkert að tryggja það 100% að ég fái ekki krabbamein, en hitt veit ég að ég er að minnka líkurnar á því ansi kröftulega.  Allt í kringum mig heyri ég talað um krabbamein. Veikindi og sjúkdómar hræða mig alveg óskaplega, sú hræðsla varð 5föld eftir að ég eignaðist Sigurð Alex. Af hverju ætti ég ekki að vilja leggja mig fram um það að auka líkur mínar á því að fá að taka þátt í hans lífi eins lengi og mögulegt er?

Þetta eru mínar ástæður. Mínar hugsanir. Mínar tilfinningar gagnvart þessu. Ég hef alltaf talið mig frekar opna manneskju og því kýs ég að tjá mig um þetta frá a-ö. Það er mín leið til að takast á við þetta. Það er kannski ekkert endilega leið sem allir kjósa, en ég ætla bara að biðja ykkur um að leyfa mér að gera þetta eins og ég tel best. Ég geri mér líka fulla grein fyrir því að ég er ekki fyrsta manneskjan í heiminum sem hætti að reykja og svo innilega vonandi ekki sú síðasta. Ég vil fá að tala um þetta óáreitt á mínu eigin bloggi. Ef það er eitthvað sem ykkur ekki líkar, þá verður það bara að vera ykkar. Það er svo sannarlega allavega ekki mitt. Svo mikið er alveg víst....

 

Ætla að fara að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni minni. 

 

Síðar......

 

5.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband